Þjónandi forysta

Photo by Smartworks Coworking

Leiðtogar framtíðarinnar

Hvað einkennir leiðtoga framtíðarinnar, þá á ég ekki eingöngu við stjórnendur í stórum fyrirtækjum heldur alla þá leiðtoga sem koma til með að hafa áhrif á heiminn. þörfin fyrir öflugum leiðtogum hefur eflaust aldrei verið jafn mikilvæg og akkurat núna, þegar kemur að því að vinna að aukinni sjálfbærni, samfélagslegri ábyrgð og ná heimsmarkmiðunum.

Að fara þessa vegferð verður ekki á ábyrgð einstakra aðila, stjórnmálafólks eða valdamikilla einstaklinga. Ó nei við þurfum öll að leggja okkar að mörkum til að gera heiminn örlítíð betri og þannig verða samlegðaráhrifinn stærri en summa allra. þegar við vinnum saman, styðjum hvort annað og deilum þekkingu og reynslu þá margfaldast geta okkar til að ná árangri.

Því er mikilvægt að þjálfa og ýta undir leiðtogahæfni einstaklinga sama hvaða stöðu þeir gegna. En hvernig leiðtoga þurfum við?

Leiðtogafærni

Leiðtogafærni er hæfni einstaklings til þess að leiða aðra, með skipulagningu, stjórnun, samhæfingu, stuðningi og hvatningu og fá þannig einstaklinga til að ná betri árangri en þeir sjálfir trúðu að þeir gátu.

Fyrirtæki og stofnanir fjárfesta gjarnan fyrst og fremst í þróun á sjáanlegri færni og þekkingu starfsmanna og leggja minni áherlsu á dulda þætti sem lúta að sjálfsþekkingu, sjálfsímynd, og félagsfærni svo eitthvað sé nefnt.

Það hefur verið fullyrt að þróun á duldri þekkingu sé mun mikilvægari fyrir virðissköpun en sýnilegu þættir.

Til að ná góðum árangri í mannlegum samskiptum þarf einstaklingur að búa yfir sjálfsþekkingu, hafa ríkan skilning á líðan annarra og geta sett sig í þeirra spor, hann þarf því að hafa getu til að mynda tengsl, bæði við einstaklinga og hópa. Samskiptafærni felur í sér hæfileika á borð við að veita öðrum athygli, sýna samkennd, hluttekningu og virðingu, virk hlustun er mikilvægur þáttur, vera áskorandi og sýna skilning og beita opnum samskiptum bæði við einstaklinga og í hópi.

Samskiptafærni er geta einstaklings til að efna til og viðhalda uppbyggilegum, heilbrigðum og árangursríkum tengslum við annað fólk og byggist hún að miklu leiti á góðu sjálfstrausti.

Þjónandi forysta

Rannsóknum á þjónandi forystu hefur fjölgað á síðustu árum, bæði erlendis sem og hér á Íslandi. Sett hefur verið fram viss gildi um slíka forystu þar sem því er haldið fram að leiðtoginn skapi sér forskot til forystu með því að sýna einlægan áhuga á högum annarra, sýni innri styrk og horfir til framtíðar.

Sá sem leiðir aðra með þjónandi forystu leggur áherslu á að þjóna fyrst og út frá því finnur hann þörfina að leiða aðra. Leiðtoginn finnur leiðir til að hjálpa einstaklingum að leysa vandmál sín og stuðla að persónulegum þroska þeirra.

Persónueinkenni þjónandi forystu

  • Hlustun: Mikilvægur eiginleiki leiðtogans er hæfni í samskiptum. Þjónandi leiðtogi sýnir fylgjendum áhuga, hlustar á þá af athygli og leiðbeinir þeim í þá átt sem þeir telja að sé rétt.
  • Samkennd: Þjónandi leiðtogi hefur getu til að setja sig í spor annarra og sýnir samúð. Hann lítur á fylgjendur sína sem fólk sem hefur þörf fyrir virðingu og skilning til að þroskast og mun þannig verða hæfara til að takast á við starfið.
  • Hvatning: Að hvetja aðra í starfi er mikilvægur styrkleiki hjá þjónandi leiðtoga og að geta veitt öðrum stuðning þegar vandamál koma upp. Þetta skilar sér út í menninguna á þann háttinn að fólk þorir að gera mistök og nýtur stuðnings.
  • Vitund: Að geta metið stöðuna eins og hún er í raun og veru innan skipulagsheildarinnar er mikilvægt, lesa starfsumhverfið og skynja þarfir starfsmanna, yfirstjórnar og viðskiptavina. Þjónandi leiðtogi þarf sér í lagi að vera meðvitaður um sig sjálfan og það sem hann stendur fyrir.
  • Sannfæringarkraftur: Þjónandi leiðtogi þarf að geta sannfært aðra til að fylgja sér með góðum rökum og sýna samræmi í ákvörðunum, hann misnotar ekki það vald sem hann hefur.
  • Framsýni: Þjónandi leiðtogi þarf að meta hvort skipulagsheildinni miði í rétta átt að langtímamarkmiðum, hann þarf að geta hugsað út fyrir rammann.
  • Þekkja orsakasamhengi: Leiðtoginn þarf að vera búinn undir að fleiri en ein niðurstaða fáist úr hverju verkefni sem tekist er á við hverju sinni, hann þarf að búa yfir hæfni til að meta líklegar niðurstöður, læra af fortíðinni og vita hvernig bæta megi skilning á því sem gerist hverju sinni.
  • Þjónusta: Leiðtogar, starfsmenn og viðskiptavinir treysta því að fyrirtæki starfi samfélaginu til hagsbóta. Litið er á þjónandi forystu til að þjóna og hjálpa öðrum og er hreinskilni og sannfæringarkraftur sterkir þættir í þeim efnum.
  • Skuldbinding gagnvart þróun annarra: Þjónandi leiðtogi trúir því að innri hvatar einstaklinga skili betri árangri í starfi. Hann ætti því að leggja áherslu á tilfinningalega, persónulega og starfslega ávinningsþætti starfsmanna sinna.
  • Jákvætt samfélag: Þjónandi leiðtogi leggur áherslu á gott samfélag innan skipulagsheildar sem verður svo sterkt í tengslum við aðrar einingar.

Þrjár grunnstoðir liggja að baki þjónandi forystu en það er í fyrsta lagi velferð annarra og innri starfshvöt. Til þess að þjóna er mikilvægt að leiðtogi búi yfir góðri sjálfsþekkingu, persónulegum styrk, auðmýkt og sé hófstilltur og sannfærandi. Virk hlustun er besta merki þess að um einlægan vilja og áhuga á hugmyndum annarra sé til staðar og vilji til að efla hag þeirra. Virk hlustun leiðir til þess að leiðtoginn skilur umhverfi sitt betur og gerir sér betur grein fyrir þörfum og hugmyndum samstarfsfólksins en mesta virðing sem hægt er að sýna öðrum er að heyra hvað sagt er og meðtaka hugmyndir og skoðanir annarra. Það þýðir þó ekki að vera alltaf sammála öllu sem sagt er heldur að sýna fólki áhuga og virðingu með því að taka eftir og íhuga það sem fer fram.

Í öðru lagi er það innri styrkur, traust og vald. Hér er átt við sjálfsþekkingu, að þekkja eigin styrkleika og veikleika, markmið og áhrif eigin athafna og orða, auk þess að efla innri styrkleika með þekkingarleit og ígrundun.

Í þriðja lagi er það framtíðarsýn og forskot forystunnar. Leiðtoginn býr yfir þekkingu á fortíðinni, hefur tilfinningu fyrir nútíðinni og hæfileika til þess að rýna inn í framtíðina. Hér skiptir innsæi miklu máli fyrir leiðtogann sem hjálpar honum að hafa yfirsýn og koma auga á tækifærin og sjá samhengi hlutanna og starfi samfélaginu til hagsbóta.

Tengsl milli leiðtogafærni og marþjálfunar

Sjá má sterk tengsl á milli leiðtogafræða og markþjálfunar en í báðum tilvikum er áherslan lögð á öflug samskipti, virka hlustun, traust, ábyrgð, ákvörðunartökur, markmiðasetningu, skipulag, hvatningu og sjálfstæði.

Aukin áhersla er lögð á hvatningu, markmið og sýn í nýlegum kenningum um leiðtoga og stjórnendur, þar sem áhersla er lögð á að allir séu meðvitaðir um markmið heildarinnar og leiðin að þeim sé skýr. Markmiðin fela í sér ávinning, bæði fyrir stjórnendur og aðra starfsmenn starfseiningarinnar.

stjórnendur sem þekkja markþjálfun eru líklegri til að hvetja starfsfólk sitt til að þróa sína eigin hæfileika, hann vinnur markvisst að betrumbótum á sjálfum sér og öðrum og skapar auk þess starfsumhverfi þar sem allir hafa möguleika á því að þroskast og dafna og hvetur samstarfsfólk sitt til að sýna frumkvæði og axla ábyrgð.